Skip to main content

Óeinangraðir veggir

Einfaldir veggir eru óeinangraðir og nýtast vel sem útveggir og innveggir, hvort sem þeir eiga að vera burðarveggir eða ekki.

Einfaldur útveggur er járnbent steypt eining, sem þá er gert ráð fyrir að verði einangruð síðar og klædd að utan.

Innveggir gegna mikilvægu hlutverki í húsbyggingum. Þeir eru notaðir sem burðarveggir og einnig til afstífingar húsa ásamt því að veita eldvörn á milli rýma, t.d. utan um innbyggða bílskúra. Innveggir frá Einingaverksmiðjunni gefa góða hljóðeinangrun og gott naglhald.

Uppbygging einingar

Veggirnir eru steyptir á þartilgerðu borði eða í standandi móti. Veggirnir geta verið allt að 10 x 4 m. Algengustu þykktir eru 12, 15, 18 og 20 cm. Veggirnir eru tilbúnir undir fínpússningu eða sandspörslun. Rafmagnsrör og dósir eru ísteyptar í veggjum skv. óskum kaupanda.

Steypa

Staðlaðar steypublöndur eru notaðar í veggina með brotstyrk upp á 25 MPa og 30 MPa sem uppfylla kröfur skv. áreitisflokki XF2 í ÍST EN 206-1:2000+ A1 2004 + A2:2005. Hægt er að nota aðrar blöndur ef þess er óskað.

Járnbending

Járnbending í veggeiningum er yfirleitt netjárnun. Styrking er yfir glugga og hurðakörmum. Einnig er tekið tillit til þeirra lóðréttu og láréttu krafta sem á þá verka við afhendingu og uppsetningu.

Samskeyti

Úr sitthvorri veggeiningunni koma lykkjur sem skarast í holrúmi. Teini er síðan stungið í lykkjurnar og steypt í holrúmið (sjá mynd 1 og 3). Þar sem að tenging á innvegg við útvegg á sér ekki stað á útveggjasamskeytum eru t.d. notaðir múrboltar og stállykkjur. Sparslað er í samskeytin. Veggirnir eru festir að neðan í plötusteypu.

Einangraðir Veggir

Einangraðir veggir eru kallaðir samlokuveggir og eru útveggir. Þeir saman standa af burðarvegg, einangrun og veðrunarkápa. Hægt er að hafa yfirborð eininga eftir óskum hvers og eins, hvað varðar efni og útlit.

Uppbygging einingar 

Stöðluð þykkt útveggja er 32 cm þ.e. 7 cm veðrunarkápa, 10 cm einangrun og 15 cm burðareining. Hægt er að fá þessum málum breytt ef þess er óskað. Rafmagnsrör og dósir eru ísteyptar í veggjum skv. að óskum kaupanda.

Steinsteypa 

Veðrunarkápan er úr veðrunarþolinni steinsteypu sem uppfyllir kröfur skv. áreitisflokki XF2 í ÍST EN 206-1:2000+ A1 2004 + A2:2005. Veðrunarkápan getur verið með mismunandi yfirborðsáferð, t.d. slétt-, stálmóta- eða marmaraáferð. Staðlaðar steypublöndur eru notaðar í veggina með brotstyrk upp á 25 MPa og 30 MPa en hægt er að nota aðrar blöndur sé þess óskað.

Járnbending 

Veðrunarkápa: Við járnbendingu á veðrunarkápu skal taka tillit til sveigju og hitasveifla og að platan geti tekið upp og dreift úr þeim kröftum sem á hana verka þegar hún er hífð upp.

Veðrunarkápuupphengi: Veðrunarkápan er hengd utan á burðareininguna með ryðfríu stáli. Þannig ber burðarveggurinn veðrunarkápuna og láréttir kraftar sem verka á kápuna flytjast um stálið yfir í burðarvegginn.

Burðarveggur: Járnbending er hönnuð með tilliti til álags sem á hann verkar. Í því felast járnamottur, bita- súlu- og kantjárn og önnur járnbending sem sérstaklega er krafist. Einnig er tekið tillit til þeirra lóðréttu og láréttu krafta sem á þá verka við afhendingu og uppsetningu.

Samskeyti

Vatnsvörnin yst í lóðréttu raufinni er kítti eða þéttilisti, þar fyrir innan kemur frauðpylsa og loks virkar samsteypan einnig sem vatnsvörn. Í láréttu raufinni nær veðrunarkápan 7 cm niður á eininguna fyrir neðan og myndar þar með vatnslás. Sökklar þurfa ekki að vera forsteyptar einingar. Hægt er að setja veggeiningarnar á hefðbundna staðsteypta sökkla.

Þaktenging 

Frágangur á efri brún veggeininga ákvarðast af þakgerð. 

Þyngd 

Af flutnings- og tæknilegum ástæðum er æskilegt að þyngd eininga fari ekki yfir 20 tonn.