Saga Einingaverksmiðjunnar
Einingaverksmiðjan hóf starfsemi sína í febrúar árið 1994 þegar fyrirtækin ÓS húseiningar og Byggingariðjan sameinuðu krafta sína undir einu nafni.
Fyrstu fimm árin störfuðu aðeins um tíu manns í framleiðslu hjá Einingaverksmiðjunni og má segja að róðurinn hafi oft á tíðum verið þungur.
Veggjaframleiðsla fór að aukast og árið 1995 var svo komið að hús sem steypt voru af Einingaverksmiðjunni voru send með skipsförmum til Þýskalands.
Fyrsta stóra verkefnið var stækkun álversins í Straumsvík árið 1996 og í tengslum við það fjölgaði starfsmönnum upp í ríflega þrjátíu manns.
Ný stúka við Laugardalsvöll var einnig steypt hjá fyrirtækinu á þessum árum sem hefur þjónað landsmönnum vel á landsleikjum frá árinu 1998 þegar hún var vígð.
Ekki skorti fjölbreytni í framleiðslunni en á þessum árum tók Einingaverksmiðjan að sér að steypa 1000 einingar fyrir fráveitulögn og vóg hver eining um 6 tonn.
Upp úr aldamótum var vöruúrval Einingaverksmiðjunnar orðið mun meira og mikil aukning framleiðslu á holplötum og forsteyptum svölum svo dæmi sé tekið.
Framleiðsla einskoraðist ekki við íslenska viðskiptavini því mikið var selt til Færeyja og Grænlands.
Þegar leið á áratuginn jókst eftirspurnin jafnt og þétt og um tíma var álagið svo mikið að félagið annaði ekki eftirspurn.
Bankahrunið skall á með miklum þunga árið 2008. Fyrirtækið lifði af með mikla útsjónarsemi í rekstrinum og þá forsjá sem fólst í því að sótt hafi verið á erlenda markaði áður en efnahagskreppan reið yfir Ísland og hafði mikil áhrif á byggingarmarkaðinn.
Vöruþróun og nýsköpun hefur aukist mikið á síðustu árum og aukin áhersla og geta til að mæta fjölbreyttum þörfum og óskum viðskiptavina.
Starfsemi Einingaverksmiðjunnar hefur vaxið mikið á síðasta áratug og í dag starfa um 80 manns.
Framleiðslan hefst um áramótin 2023 í nýrri hátækni verksmiðju við Koparhellu 5 í Hafnarfirði. Verksmiðjan er sex þús. fermetrar að stærð og inniheldur 22 framleiðslubekki sem eru allt að 90 metra langir.
Framleiðslugeta er nú yfir 1000 fermetrar á dag og gerir því ný verksmiðjan Einingaverksmiðjunni kleift að vaxa enn frekar og framleiða hágæða vörur á fjölbreyttan máta.