Steinsteypa hefur margsannað sig sem öflugt og hagkvæmt byggingarefni. Hún er alls staðar í kringum okkur og svo algeng að við íhugum sjaldnast hvers konar undraefni er hér á ferðinni.
Steinsteypa er einstaklega endingargóð – reyndar svo endingargóð að margar elstu byggingar veraldar eru einmitt úr steypu. Hús úr steinsteypu eru einnig öruggari en aðrar byggingar. Steypa brennur til að mynda ekki og sænskar rannsóknir hafa sýnt að tíu sinnum minni líkur eru á meiriháttar eldsvoða í steyptu húsi en húsum úr öðrum byggingarefnum. Steypa ryðgar ekki, bráðnar ekki, rotnar ekki og tærist ekki. Hún er ekki gróðrastía fyrir sveppagróður né veggjatítlur og nagdýr eiga ekki greiða leið inn í steinsteypt hús.
Byggingar úr steinsteypu þola íslenskt veðurfar með öllum þeim umhleypingum, roki, frosti og rigningum sem því fylgir. Hún er sterk og styrkist meira að segja með tímanum. Steypa er umhverfisvænn kostur því ekki þarf að sækja aðföngin langt að. Þá má endurvinna hana, hún er hljóðdempandi, hitastillandi og veldur ekki húsasótt.
Steypuna má móta á ýmsa vegu, hún getur verið þunn eða þykk, létt eða þung, bein eða ávöl. Hana má laga að þeim formum sem þegar eru til staðar eða nota til að skapa eitthvað alveg nýtt. Yfirborð hennar getur verið hrjúft og gróft eða jafnvel pólerað og gljáandi, allt eftir því sem hentar hverju sinni. Steinsteypu er hægt að lita í ýmsum litum og nota má mismunandi yfirborðsefni til að skapa þá áferð sem vill hverju sinni.